Icelandic Bible


Fyrsta bók Móse 141 Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til,
2 að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar).
3 Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.)
4 Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn.
5 Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum
6 og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina.
7 Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar.
8 Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum,
9 móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm.
10 En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla.
11 Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt.
12 Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu.
13 Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams.
14 En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan.
15 Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus.
16 Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.
17 En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.)
18 Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs.
19 Og hann blessaði Abram og sagði: "Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar!
20 Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!" Og Abram gaf honum tíund af öllu.
21 Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: "Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina."
22 Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: "Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar:
23 Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.`
24 Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut."