Icelandic Bible


Sálmarnir 51 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.
2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.
5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.
8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.