Icelandic Bible


Sálmarnir 761 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.