Icelandic Bible


Önnur bók Móse 21 Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví.
2 Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði.
3 En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum.
4 En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði.
5 Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana.
6 En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea."
7 Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?"
8 Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins.
9 Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti.
10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."
11 Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans.
12 Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum.
13 Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: "Hví slær þú náunga þinn?"
14 En hann sagði: "Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?" Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: "Það er þá orðið uppvíst!"
15 Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu.
16 Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns.
17 Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra.
18 Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: "Hví komið þér svo snemma heim í dag?"
19 Þær svöruðu: "Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum."
20 Hann sagði þá við dætur sínar: "Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar."
21 Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína.
22 Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: "Gestur er ég í ókunnu landi."
23 Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs.
24 Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob.
25 Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.