Icelandic Bible


Önnur bók Móse 311 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl.
3 Ég hefi fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik,
4 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri
5 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði.
6 Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt:
7 samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins,
8 borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið,
9 brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess,
10 glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans,
11 smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt."
12 Drottinn talaði við Móse og sagði:
13 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: ,Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er Drottinn, sá er yður helgar.
14 Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.
15 Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða.
16 Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála.
17 Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist."`
18 Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.