Icelandic Bible


Prédikarinn 111 Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.
2 Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið.
3 Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs _ á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt.
4 Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.
5 Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir.
6 Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.
7 Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina.
8 Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi.
9 Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.
10 Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.