Icelandic Bible


Bréf Páls til Rómverja 131 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.
2 Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.
3 Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.
4 Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.
5 Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.
6 Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.
7 Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.
8 Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.
9 Boðorðin: "Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast," og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.
11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.
12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.
13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.
14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.