Icelandic Bible


Fimmta bók Móse 271 Móse og öldungar Ísraels buðu lýðnum og sögðu: "Varðveitið allar þær skipanir, sem ég legg fyrir yður í dag.
2 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú reisa upp stóra steina og strjúka þá utan kalki
3 og rita á þá öll orð lögmáls þessa, þá er þú ert kominn yfir um, til þess að þú komist inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér.
4 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan, þá skuluð þér reisa upp þessa steina, sem ég hefi mælt fyrir um í dag, á Ebalfjalli og strjúka þá utan kalki.
5 Þú skalt og reisa Drottni Guði þínum þar altari, altari af steinum. Þú mátt ekki bera að þeim járntól.
6 Af óhöggnum steinum skalt þú reisa altari Drottins Guðs þíns, og á því skalt þú fórna Drottni Guði þínum brennifórnum.
7 Og þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum.
8 Og þú skalt rita á steinana öll orð þessa lögmáls mjög greinilega."
9 Móse og levítaprestarnir töluðu til alls Ísraels og sögðu: "Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ert þú orðinn lýður Drottins, Guðs þíns.
10 Fyrir því skalt þú hlýða raustu Drottins Guðs þíns og halda skipanir hans og lög, sem ég legg fyrir þig í dag."
11 Þennan sama dag bauð Móse lýðnum og sagði:
12 "Þessir skulu standa á Garísímfjalli til þess að blessa lýðinn, þegar þér eruð komnir yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín.
13 Og þessir skulu standa á Ebalfjalli til að lýsa bölvan: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.
14 Levítarnir skulu taka til máls og segja með hárri raustu við alla Ísraelsmenn:
15 Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handaverk smiðs, og reisir það á laun! Og allur lýðurinn skal svara: Amen.
16 Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
17 Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
18 Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
19 Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
20 Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
21 Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
22 Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
23 Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
24 Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
25 Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
26 Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim! Og allur lýðurinn skal segja: Amen."