Icelandic Bible


Fyrri Samúelsbók 161 Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."
2 Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig." En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.`
3 Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."
4 Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"
5 Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.
6 En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði."
7 En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."
8 Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
9 Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið."
11 Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?" Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða." Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað."
12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það."
13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.
14 Andi Drottins var vikinn frá Sál, en illur andi frá Drottni sturlaði hann.
15 Þá sögðu þjónar Sáls við hann: "Illur andi frá Guði sturlar þig.
16 Herra vor þarf ekki nema að skipa; þjónar þínir standa frammi fyrir þér og munu leita upp mann, sem kann að leika hörpu. Þá mun svo fara, að þegar hinn illi andi frá Guði kemur yfir þig, og hann leikur hörpuna hendi sinni, þá mun þér batna."
17 Og Sál sagði við þjóna sína: "Finnið mér mann, sem vel leikur á strengjahljóðfæri, og færið mér hann."
18 Þá svaraði einn af sveinunum og mælti: "Sjá, ég hefi séð son Ísaí Betlehemíta, sem kann að leika á strengjahljóðfæri og er hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel, og Drottinn er með honum."
19 Þá gjörði Sál menn til Ísaí og lét segja honum: "Sendu Davíð son þinn til mín, þann er sauðanna gætir."
20 Þá tók Ísaí tíu brauð, vínbelg og einn geithafur og sendi Sál með Davíð syni sínum.
21 Og Davíð kom til Sáls og þjónaði honum. Lagði Sál mikinn þokka á hann og gjörði hann að skjaldsveini sínum.
22 Þá sendi Sál til Ísaí og lét segja honum: "Lát þú Davíð ganga í þjónustu mína, því að hann fellur mér vel í geð."
23 Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.